Yfir úfna og ygglna dröfn
alvalds höndin leiði
skip og skipshöfn heil í höfn
hættum frá þeim greiði.


Ágætu Sjómenn og aðrir kirkjugestir - til hamingju með daginn.

Mér finnst vel við hæfi í dag, þegar við höldum Sjómannadaginn hátíðlegan að fara nokkrum orðum um bæinn okkar - Húsavík - þennan ágæta bæ, sem hefur fóstrað okkur svo vel, þar sem sjómennskan er samofin sögu bæjarins, tilurð hans og framþróun.

Landnámabók segir frá því að á Húsavík hafi norrænir menn fyrst haft vetursetu á Íslandi. Var þar á ferðinni sænskur maður, Garðar Svavarsson að nafni. Hann var um vetur norður í Húsavík við Skjálfanda og gerði þar hús. Af þeim húsum hlaut víkin nafnið, sem mun því vera eitt elsta örnefni landsins.

Það er einkum tvennt sem kemur til greina og hægt er að fóta sig að nokkru á, um Húsavík á fyrri tímum, en það er kirkjan og verslunin, en þorpsmyndun hófst ekki á Húsavík fyrr en seint á nítjándu öld. Talið er að kirkja hafi risið á Húsavík a.m.k. á l2. öld. Telja verður nokkuð víst að kirkja og prestsetur hafi alla tíð verið á sama stað á Húsavík allt til ársins l907 að núverandi kirkja var byggð. Kirkjan og prestsetrið stóðu norðarlega og ofarlega þar sem gamli kirkjugarðurinn er nú.

Í Húsavík lentu kaupmenn skipum sínum til verslunar, enda skárst höfn þar í Þingeyjarþingi, þaðan sem best náðist til fjölmennra sveita. Lengi framan af var sigling til Húsavíkur afar stopul, stundum alls engin en stundum all veruleg. Fyrst eftir að einokunarverslunin hófst árið l602 var Húsavík ekki talin með höfnum sem siglt skyldi á, en úr því var bætt árið l6l4 og hefur Húsavík verið fastur verslunarstaður frá þeim tíma.
Þegar skip komu til Húsavíkur var staðurinn sannkölluð héraðsmiðstöð en aðeins prestsetur úti við sjóinn ef sigling féll niður. Byggðin var lengst af prestsetrið, örfá hjáleigukot og að minnska kosti eftir árið 1614 búðir kaupmanna. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns eru árið l7l2 taldir vera 23 manns heimilsfastir á Húsavík. Í manntali árið l8l6 eru íbúar orðnir 5l.

Eins og að framan segir er það einkum verslunin og kirkjan sem eitthvað er skráð um og veita upplýsingar um Húsavík á liðnum öldum, vitað er að þjóðverjar versluðu hér á 16. öld og konungsverslun var hér um skeið, síðar kom svo einokunarverslunin til sögunnar, en frjá l787 til l882 máttu selstöðukaupmenn teljast hér einráðir um verslun, lengst af verslunarfyrirtækið Örum og Wulf. Það er svo árið l882 sem Kaupfélag Þingeyinga var stofnað og byrjaði hér starfsemi sína, og hóf samkeppni við selstöðuverslunina. Upp úr aldamótunum komu svo fleiri verslanair til sögunnar, en selstöðuverslunin hætti hér starfsemi árið 1918.

Árið l9l2 var Húsavíkurhreppi hinum gamla skipt upp í Húsavíkurhrepp og Tjörneshrepp og voru þá íbúar í Húsavíkurhreppi hinum nýja rúmlega 300. Hinn l. janúar árið l950 fær svo Húsavík kaupstaðarréttindi, en þá voru íbúar Húsavíkur rúmlega l200. Á fyrstu 30 árum kaupstaðarins frá l950 - l980 tvöfaldaðist íbúafjöldinn. Eftir 1980 hægði verulega á fólksfjölgun á Húsavík og bæjarbúar urðu flestir árin l983 og l996 þegar þeir voru 2514 og hafði íbúafjöldinn verið stöðugur um 2500 í meira en áratug. Síaðastliðin ár hefur íbúum aðeins fækkað.

En stundum aftur ég aleinn má,
í ofsarokinu berjast.
Þá skellur niðadimm nóttin á,
svo naumast hægt er að verjast.
Ég greini ei vita né landið lengur.
En ljúfur Jesús á öldum gengur,
um borð til mín í tæka tíð.

Húsvíkingar hafa frá fornu fari stuðst við sjávarafla og hefur útgerð og fiskvinnsla verið ein styrkasta stoð þessa bæjar. Fyrstu forsendur fyrir útgerð að einhverju marki umfram vöruskipti og sjálfsþurft komu í ljós á áttunda áratug nítjándu aldar þegar Verslun Örum og Wulffs hóf fiskkaup eins og verslunarstjórinn Þórður Guðjohnsen þekkti frá Suðurlandi og víðar. Fram yfir aldamótin 1900 var aðeins um að ræða sjósókn á opnum ára- og seglbátum frá vori og fram á haust, en sökum skorts á hafnarmannvirkjum var ekki hægt að sækja sjó á vetrum að neinu marki.

Árið 1900 kom Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingur til Húsavíkur og kynnti sér sjávarútveg Húsvíkinga: Hann segir meðal annars í tímaritinu Andvara árið eftir: Menn róa nú frá Húsavík lengst um 2 mílur vestur í flóann, og svo norður í kringum Lundey. Sjór er stundaður frá maí til ársloka ef afli endist svo lengi. Aðal veiðarfærið er lóðin, en einnig eru brúkuð handfæri og þá fiskað við laust, en aldrei legið við stjóra. Fyrir dufl hafa menn keilumyndaðar baujur og bandingja fyrir stjóra.
Lóðin er dregin aftan á bátnum, og aðeins beitt í landi. Kaflínur og þorskanet hafa ekki verið reynd. Beitt er síld, þegar hún er til, annars silungi, hlýra, smálúðu og stundum smokkfiski.

Árið 1905 kom fyrsti vélbáturinn til Húsavíkur og var honum gefið nafnið Hagbarður TH 76. Árið l907 voru vélbátarnir orðnir 10. Þá efndi Ari Jochumsson til verðlaunasamkeppni um bestu vísuna þar sem rímuð væru saman nöfn þessara tíu báta. Verðlaunin hlaut Jón Runólfsson, smábarna- kennari á Húsavík. En vísan er svona:

Hagbarð, Ylfing, Geysi, Gunnar,
Garðar, Héðinn, Hafþór, Njál.
Storm og Goða auður Unnar
alla fylli. - það er mál.

Þegar fyrstu vélbátarnir komu til sögunnar jókst mjög áhugi Húsvíkinga á sjósókn og leituðust þeir eftir að verða þátttakendur í þróun fiskveiða á vélbátum þrátt fyrir að aðstæður væru þeim á ýmsan hátt óhagstæðar. Hafnleysið var þeim þyngst í skauti. Það var ekkert skjól í höfninni og báta varð að setja upp í fjöruna til að bjarga þeim undan brimi og veðrum. Við þessar óhagstæðu aðstæður þýddi ekki að hugsa um stóra báta. Vegna hafnleysis misstu Húsvíkingar báta í sjóinn eða fengu þá brotna upp í fjöru. Mestur varð skaðinn árið l934, þrátt fyrir að þá væri búið að byggja hluta af hafnarbryggjunni, núverandi Suðurgarði. Þórarinn Stefánsson þáverandi fréttaritari Ríkisútvarpsins segir m.a. í frétt 27. okt. það ár. " Í nótt var hér stórviðri af norðri með hafróti svo miklu að menn muna ekki annað eins. Gekk sjór yfir bryggjuna og bólverk og tók allt lauslegt sem fyrir var svo sem bryggjustaura, mótorbáta, tunnur o.fl. og fleygði þessu fram og aftur um fjöruna. Öll uppfyllingin ofan við Hafnarbryggjuna brotnaði upp og þvoðist í burtu. Sjálf bryggjan stendur nokkurn veginn óskemmd. Kaupfélagsbryggjan brotnaði og er því nær ónýt orðin. Tveir stórir motorbátar og fjórir trillubátar týndust eða brotnuðu í spón og margir beituskúrar hafa brotnað og færst úr stað. Öll framhliðin á húsi Hafnarsjóðs brotnaði og gekk sjórinn inn í húsið og eyðilagði fisk er þar var."
Það má því segja að í þessu október veðri árið l934 hafi þau hafnarmannvirki sem Húsvíkingar höfðu notast við eyðilagst, en eftir stóð aðeins Hafnarbryggjan sem byrjað var á þetta ár og er hún því elsta hafnarmannvirkið og upphaf núverandi hafnarmannvirkja á Húsavík.
Framkvæmdum við höfnina hefur frá þessum tíma verið fram haldið með hléum, bæði til að þjóna fiskiskipum, vöruflutningaskipum og skemmtibátum og er höfnin nú að verða með öruggustu höfnum og á næsta ári, þegar lokið verður viðlegukanti við Bökugarð með l2 metra dýpi verður þessi höfn ein af bestu höfnum landsins.

Jóhannes Guðmundsson kennari á Húsavík segir frá því að sumarið l924 hafi verið sérstaklega hagstætt fyrir sjómennina á Húsavík. Mjög góður afli var á alla bátana allt sumarið, stærri sem smærri og telur Jóhannes að þá hafi Húsvíkingar byrjað að rétta úr kútnum og síðan l924 hefði varla nokkur lifað við verulegan skort á Húsavík. Einnig hefðu sjómenn um þetta leyti byggt sér hús og klæðaburður fullorðinna og barna varð vandaðri.

Þáttaskil urðu í Útgerðarsögu Húsvíkinga á árunum kringum l930 þegar árabátarnir hurfu að mestu, en við tóku eingöngu vélbátar. Bætt hafnaraðstaða varð lykillinn að aukinni vélbátaútgerð, en hafnarbryggjan sem áður er getið var fullbúinn árið l936 og bygging hafnargarðsins hófst árið l944. Bryggjuaðstaðan varð til þess að byrjað var að salta síld í smáum stíl árið l934 og hraðfrysting á síld og fiski hófst árið l936. Síldarverksmiðja var byggð árin 1937 - 1938. Þetta allt hvatti til þess að keyptir voru stærri bátar. Dæmi voru um að útgerðir hefðu samstarf um síldveiðar, það varð einnig til þess að útgerð smábáta óx þar sem beita var næg og þeir lögðu stund á þorskveiðar. Hin aukna síldveiði og smábátaútgerð var til þess að síldin varð aðalþungamiðjan í útgerð frá og með 1944. Stóru bátarnir veiddu síld á sumrin en stunduðu þorskveiðar við Suðvesturland á vetrum. Skipin stækkuðu og veiðarfærin urðu stórvirkari, síld var söltuð á Húsavík allt til ársins l969, en þá hrundi síldarstofninn, þó var söltuð síld í smáum stíl á árunum l980-l984.

Nótaveiðar á þorski, ufsa og ýsu hófust fyrir Norðurlandi árið l962, þessar veiðar náðu hámarki á árinu l969, en þessum veiðum lauk árið l974. Á þessum árum fjölgaði bátum mjög mikið á Húsavík, þannig voru hér árið l960 fimm dekkbátar af stærðunum 8 - 40 tonn, tólf árið l970 og tuttugu og einn árið l975, þegar nótaveiðarnar voru hættar. Á næstu árum voru keyptir nokkrir bátar til viðbótar, en síðan dró úr fjöldanum og frá l980 fækkaði bátum af stærðinni l5 - 70 tn. mjög mikið.

Smábátaútgerð hefur alla tíð verið almenn og mjög mikilvæg atvinnugrein á Húsavík. Fjölmargir sjómenn og útgerðarmenn byrjuðu að sækja sjóinn á smábát og einnig var algengt að eldri menn, sem hættu á stærri bátum, fengju sér trillu. Trilluútgerðin var sérstaklega mikilvæg á þeim tíma sem Húsvíkingar sóttu í stórum hópum á vetrarvertíð syðra. Margir þessarra manna áttu trillu og sóttu sjó á henni yfir sumarið og fram á haustið. Smábátasjómenn hafa líka sumir hverjir lagt stund á eldri atvinnugreinar sem höfðu nánast lagst af. Hér er átt við selveiði og hákarlaveiði og verkun á sel, hákarli og öðru sjávarfangi. Þá hefur hrognkelsaveiðin ávallt verið stunduð á smábátum, og verið stór þáttur í afkomu þeirra flestra.

Árið l976 hófst togarútgerð á Húsavík, en tilraunir til slíkrar útgerðar í samvinnu við önnur sveitarfélög mistókst seint á sjötta áratugnum. Í dag er gerður út frá Húsavík einn rækjufrystitogari , eitt uppsjávarveiðiskip, einn fiskibátur yfir 100 tonn, fjórir fiskibátar l7 - 40 tonn, tuttugu og sex fiskibátar undir 10 tonnum, fimm hvalaskoðunarbátar og tuttugu og einn skemmtibátur, eða samtals 59 skip og bátar.

Rækjuveiðar bátanna frá Húsavík hófust að einhverju marki eftir miðjan áttunda áratuginn, en frá þeim tíma hafa rækjuveiðar og rækjuvinnsla verið fyrirferðamiklar í sjávarútvegi Húsvíkinga.

Á allra síðustu árum hefur útgerð hvalaskoðunarbáta verið mjög blómleg á Húsavík, hér er um nýja atvinnugrein að ræða þar sem Húsvíkingar hafa verið í fararbroddi, þessi starfsemi hefur öðru fremur aukið mjög ferðamannaiðnað á Húsavík og komið Húsavík á kortið í þeim málum.

Ég vil ekki láta hjá líða í þessari umfjöllum minni um Sjávarútveg okkar Húsavíkinga að minnast á Sjóminjasafnið sem opnað var á síðasta ári og sýnir okkur betur en mörg orð sögu sjósóknar frá Húsavík frá upphafi til dagsins í dag. Þá vil ég einnig nefna lofsvert framtak þeirra sem komið hafa upp Hvalamiðstöðinni á Húsavík. En mikið frumkvöðlastarf er unnið í báðum þessum stofnunum.

Það hefur ávallt verið mikið líf fyrir neðan Bakkann, á árum áður var þar beitt og stokkað í hverjum skúr, söltuð síld á Hafnarstéttinni og bryggjunum og svæðið iðaði af mannlífi. Á síðustu árum hefur hafnarsvæðið tekið á móti miklum fjölda ferðamanna og ber á sér alþjóðlegan blæ, það verður því ekki annað sagt en að Hafnarsvæðið á Húsavík hafi verið og verði miðpunktur þessa bæjar.
Það er von okkar sem hér búum að sjávarútvegur og starfsemi honum tengd, verði áfram öflug á Húsavík, og að iðnaðaruppbygging byggð á orkulindum í héraði, verði á allra næstu árum að veruleika á Húsavík, og þannig fáum við aukin umsvif um Höfnina okkar og aukinn kraft í samfélagið, sem okkur er svo nauðsynlegt til að Húsavík blómstri og dafni til framtíðar.

Ágætu Sjómenn:

Ég ætla að lokum að fara með sjóferðabæn eftir Hákon Aðalsteinsson og bið að inntak þessarar bænar fylgi ykkur:

Gæfan sé með þér í straumi lífsins leiða,

lánið þér fylgi um viðsjál ólgu höf.

Velkomin heim yfir hafsins vegi breiða,

hamingjan verði þín æðsta morgun gjöf.